Landsréttur vísaði nýverið frá héraðsdómi kröfum fimm aðila þess efnis að Landsbankanum Luxembourg S.A. yrði gert skylt að afhenda ákveðin skjöl til afnota í rekstri dómsmála á hendi Björgólfi Thor Björgólfssyni. Ástæðan fyrir frávísuninni er sú að íslenskir dómstólar hafa ekki lögsögu til þessa.

Stefnendur í málunum eru Málssóknarfélög hluthafa Landsbankans I, II og III og síðan Fiskveiðihlutafélagið Venus og Vogun hf. Málareksturinn hefur verið lengi í gangi en Björgólfi Thor er stefnt til viðurkenningar á skaðabótaskyldu á tjóni sem hluthafar urðu fyrir þegar hlutir þeirra urðu verðlausir í efnahagshruninu.

Sá angi málsins sem nú var til úrskurðar laut að félögunum Axis Capital Limited og Givenshire Equities Limited. Í desember lagði lögmaður Björgólfs fram í þinghaldi afrit af hluthafaskrá Givenshire en þar kemur fram að Landsbankinn Lux hafi verið skráður fyrir öllum hlutum í félaginu. Axis hafi verið „nafngreindur hluthafi“ í félaginu en raunverulegir eigendur þess hafi verið Andri Sveinsson, Birgir Már Ragnarsson og Heiðar Guðjónsson.

Síðar kröfðust stefnendur málanna að Landsbankinn Lux, sem er í slitameðferð þar ytra, legði fram ýmis gögn. Lutu þau meðal annars að viðskiptum með hluti í Givenshire, afrit af fyrirmælum „svokallaðra raunverulegra eigenda“ um kaup Axis í Givenshire og viðskiptum með fleiri félög á lágskattasvæðum. Til vara var þess krafist að umrædd gögn yrðu lögð fyrir dómara málsins í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Áður hafði þess verið krafist að hinir raunverulegu eigendur afhentu skjölin en þeir kváðust ekki hafa þau undir höndum.

Í héraði var synjað um afhendingu gagnanna á þeim grundvelli að ekki væri lagastoð fyrir kröfunni. Í úrskurðum Landsréttar sagði að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu til að taka afstöðu til krafnanna og yrði því að gera það fyrir rétti í Lúxemborg. Var málunum fimm því vísað frá héraðsdómi.