Slitastjórn gamla Landsbankans fundar nú með kröfuhöfum og gerir þeim m.a. grein fyrir afstöðu sinni til viðræðna með fulltrúum nýja bankans sem hafa óskað eftir því að skilmálum  afborgana á skuldabréfum í erlendri mynt sem hann á að greiða. Rætt verður m.a. um það hvort fara eigi út í viðræður við nýja bankann um breytingar á skilmálunum. Skuldabréfið er tilkomið vegna færslu eigna gamla bankans yfir í þann nýja eftir hrunið haustið 2008.

Fulltrúar Landsbankans funduðu með slitastjórninni og óformlegu kröfuhafaráði gamla bankans í London í síðustu viku. Breska dagblaðið Guardian sagði að fram hafi komið á fundinum ytra að fulltrúar nýja bankans hafi sagt hann ekki geta staðið undir stífum afborgunum af lánunum og sé hætta á að hann fari í þrot af þeim sökum.

Þessu neitaði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans um síðustu helgi en í tilkynningu frá bankanum segir að frekar sé stefnt að því að endurfjármagna lánin í stað þess að greiða þau upp að fullu.

Á meðal annarra mála á dagskrá slitastjórnar Landsbankans með kröfuhöfum í dag verða m.a. staða þrotabúsins við lok annars ársfjórðungs auk þess sem líklega verður rætt um dóm Hæstaréttar frá í síðustu viku um útgreiðslur úr bönkunum til kröfuhafa.