Skilanefnd Kaupþings hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að óbreyttu séu það kröfuhafar bankans sem þurfa að bera kostnað af málaferlum við Breta og taka þá áhættu sem af slíkum málaferlum leiðir.

Í tilkynningu frá skilanefnd segir að í kjölfar inngripa breskra yfirvalda með skipan skiptastjóra í Kaupthing Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings banka hf., þann 9. október síðastliðinn óskaði skilanefnd Kaupþings banka eftir því við bresku lögmannsstofuna Grundberg, Mocatta, Rakison LLP að gerð yrði frumathugun á því hverjir væru möguleikar bankans á að krefjast skaðabóta á hendur breska ríkinu.

Unnið er að því að útvega þau gögn sem óskað hefur verið eftir til að ljúka þessari athugun. Ljóst er að málaferli af þessum toga eru mjög kostnaðarsöm og í þeim er óhjákvæmilega fólgin óvissa um niðurstöðu. Að óbreyttu eru það kröfuhafar bankans sem þurfa að bera þann kostnað og taka þá áhættu sem af slíkum málaferlum leiðir. Þeir hljóta því að eiga síðasta orðið um það hvort af málssókn verður.