Sívaxandi óþreyju gætir hjá kröfuhöfum föllnu bankanna í garð íslenskra stjórnvalda. Þeim finnst stjórnvöld draga lappirnar við samninga um slit bankanna. Þetta er fullyrt á vef blaðsins Financial Times . Blaðið segir að alþjóðlegir kröfuhafar vilji fá 2800 milljarða íslenskra króna úr bönkunum þremur. Slíkir samningar eru nátengdir öllum áformum um afnám fjármagnshafta.

Financial Times segir að kröfuhafar hafi ekkert heyrt í íslenskum stjórnvöldum frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við. Heimildarmaður sem þekkir til kröfuhafa segir að þeir séu skipulagðir og hafi verið að óska eftir viðræðum við yfirvöld um tilboð sem hafi verið gert á síðasta ári

„Kröfuhafar hafa áhyggjur af áhugaleysi stjórnvalda,“ segir heimildarmaðurinn við blaðið. Blaðið segir jafnframt að þótt ríkisstjórnin segir að afnám fjármagnshafta sé eitt af forgangsverkefnunum geri ríkisstjórnin ekkert í því að vinna í málinu

„Við ætlum ekki að gera neitt til þess að hafa áhrif á samninga við kröfuhafa..... Stjórnvöld geta ekki tekið yfir hlutverk einkafyrirtækja og samið fyrir þau,“ hefur Financial Times eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Financial Times fullyrðir jafnframt að ástæða þess að íslensk yfirvöld dragi lappirnar séu þau að Seðlabankinn sé að bíða eftir viðbrögðum frá ríkisstjórninni. Samkvæmt lögum sem hafi verið samþykkt í mars verði fjármálaráðherra að samþykkja allar ákvarðanir um föllnu bankana.