Umsagnaraðilar um frumvarpsdrög nýrra laga um upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa telja fyrirhugaðar breytingar almennt jákvæðar. Að þeirra mati má þó finna á stöku stað í drögunum ákvæði sem leggja þyngri kröfur á herðar aðila en gengur og gerist í öðrum ríkjum.

Umrætt frumvarp byggir á gagnsæistilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á henni gegnum árin. Með því er lagt til að sett verði ný heildarlög um viðvarandi og reglulega upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og að þrír kaflar núgildandi laga um verðbréfaviðskipti falli brott. Þar eru á ferð kaflar VII. til IX., það er um reglulegar upplýsingar útgefanda, skyldur útgefanda um veitingu upplýsinga og kaflanum sem fjallar um flagganir vegna breytinga á verulegum hlut atkvæðisréttar.

Samkvæmt greinargerð draganna miða breytingarnar að því að auka skilvirkni og sveigjanleika fyrirkomulags varðandi birtingu upplýsinga og auka fjárfestavernd. Að auki á það að létta byrðar útgefenda og gera þeim auðveldara að sækja fjármagn innan EES og auka samkeppnishæfni Íslands á svæðinu. Sú breyting mun sérstaklega nýtast litlum og meðalstórum útgefendum. Þá felur breytingin í sér að einstaklingar munu geta talist sem útgefendur en áður féllu þeir utan skilgreiningar á hugtakinu.

Ísland ætti ekki að vera úr takti

Drögin voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda lungann af síðasta mánuði og bárust þrjár umsagnir, ein frá Nasdaq Iceland, önnur frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) og að endingu frá Ólafi Arinbirni Sigurðssyni, lögmanni hjá Logos. Í síðastnefndu umsögninni er meðal annars sett út á það að flöggunarskyldur aðili skuli senda tilkynningu til útgefanda og FME „án tafar og eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir að flöggunarskyldan stofnaðist“.

„Í tilskipuninni er kveðið á um það að tilkynnt skuli án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að skyldan stofnaðist. […] Undirritaður fær engin rök séð til þess að gera strangari kröfur hér á landi en áskilið er í gagnsæistilskipuninni, sérstaklega í ljósi þess að tilgangur lagasetningarinnar er að stuðla að raunverulegum innri markaði, draga úr íþyngjandi stjórnsýslumeðferð og að efla samkeppnishæfni íslenskra útgefenda innan EES. Þvert á móti telur undirritaður að þessar auknu kröfur séu til þess fallnar að vinna gegn þeim markmiðum sem stefnt er að,“ segir í umsögn Ólafs.

Að mati lögmannsins leggja fyrirhugaðar kröfur óþarflega íþyngjandi skyldur á þátttakendur á markaði, sem gæti leitt til þess að áhugi fjárfesta, innlendra sem erlendra, á fjárfestingakostum hér á landi verði minni en ella. Frestur útgefanda til að birta tilkynninguna er síðan talsvert skemmri en gengur og gerist annars staðar.

„Að mati undirritaðs ætti Ísland ekki að vilja vera úr takti við önnur lönd […] án þess að þar að baki búi sterk efnisleg rök. Hafa verður í huga að aðstæður flöggunarskyldra aðila geta verið mismunandi, þar getur verið tímamismunur, uppbygging starfseminnar, sem getur t.d. verið í mörgum mismunandi löndum o.fl. hafa áhrif á möguleikann á því að senda tilkynningu nánast í rauntíma,“ segir í umsögn Ólafs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .