Gengislækkun krónu, sem nam 28% á fyrsta ársfjórðungi, kemur illa við rekstur Nýherja [ NYHR ] á fyrsta ársfjórðungi. Gengistapið 431 milljón króna á tímabilinu. Félagið tapaði 341 milljón króna á fjórðungnum, sem er mikill munur frá sama tímabili fyrir ári, er Nýherji hagnaðist um 105 milljónir króna. Á sama tímabili jókst sala félagsins um 41%, að því er fram kemur í uppgjöri félagsins.

Þrátt fyrir þetta tap, er Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, bjartsýnn á afkomu félagsins á árinu, í ljósi þess að kjarnastarfssemi félagsins er öflug og arðbær. Framlegð fyrir skatta og afskriftir eða EBITDA, af kjarnastarfssemi Nýherja var í takt við áætlanir en EBITDA hjá nokkrum nýrri dótturfélögum var undir væntingum.

Í  fréttatilkynningu segir að horfur fyrir annan fjórðung séu ágætar, því verkefnastaðan sé góð. Hinsvegar gæti umrót á fjármálamörkuðum leitt til þess að eftirspurn eftir vörum og þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja á síðar hluta ársins verði minna.

Þetta var viðburðaríkur fjórðungur fyrir Nýherja, félagið keypti TM Software fyrir 1,4 milljarða króna og sænska upplýsingatæknifyrirtækið Marquardt & Partners fyrir 357 milljónir króna. Samhliða kaupunum á TM Software var hlutafé aukið um 45 milljónir hluti hluta, eða um milljarð að markaðsvirði, og var hluti hlutafjáraukningar nýttur til að greiða seljenda félagsins. En meiri hluti var seldur starfsmönnum og hlutahöfum.

Eftir þessi kaup kemur yfir helmingur tekna Nýherja frá sölu á rekstrarþjónustu, hugbúnaðarþróun og samþættingu í stað sölu á vélbúnaði.