"Verðbólga hefur hjaðnað og verðbólguhorfur eru nú mun betri en gert var ráð fyrir í síðustu spá Seðlabankans," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri þegar hann rökstuddi þá ákvörðun Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 14,25%. "Á hinn bóginn er enn mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og verðbólga er enn langt yfir markmiði bankans,"sagði Davíð. Tólf mánaða verðbólga stendur nú í 6,9% en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Davíð telur að Seðlabankinn muni ná verðbólgumarkmiði sínu á næstu 18 til 24 mánuðum.

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningadeildar Landsbankans, segist búast við að Seðlabankinn haldi vöxtum sínum óbreyttum í 14,25% þangað til í sumar. "Þar til þá mun Seðlabankinn fylgjast grannt með ýmsum hagvísum í leit að afgerandi vísbendingum um að jafnvægi hafi náðst í hagkerfinu og að þenslan sé á undanhaldi," segir Edda Rós. Að hennar mati munu nýjar hagtölur um hagvöxt og viðskiptahalla fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs vega þungt þegar Seðlabankinn stígur næstu skref. "Ég á von á að þessar tölur leiði í ljós að talsverður viðsnúningur hafi orðið í hagkerfinu sem kalli á lækkun vaxta og réttlæti hraðan vaxtalækkunarferill," segir Edda Rós. Almennt búast greiningaraðilar við að vaxtalækkunarferill Seðlabankans hefjist um miðbik þessar árs og gangi svo hratt fyrir sig. Þá búast greiningaraðilar við að vextir Seðlabankans verði í kringum 10% til 11,25% undir lok þessa árs.

Lars Christensen, sérfræðingur greiningadeildar Danske Bank, segir að óbreyttir stýrivextir Seðlabankans nú komi sér ekki á óvart, en segir of snemmt að segja til um hvort að vaxtahækkunarferli bankans sé lokið. "Það er ennþá möguleiki á frekari hækkunum, sérstaklega ef krónan tekur dýfu og tekur að veikjast," segir Lars.

Í rökstuðningi Davíðs Oddsonar kom fram að verðbólguhorfur framundan ættu mikið undir því að krónan haldi jafnvægi. "Stöðugleiki krónunnar er háður vilja alþjóðlegra fjárfesta og reynslan sýnir að jafnvel hóflegar breytingar á alþjóðlegum fjármálaskilyrðum geta valdið verulegum sveiflum ," sagði Davíð, og vísar til þeirrar staðreyndar að um þessar mundir eru útistandandi krónubréf að andvirði 260 milljörðum króna. "Ef kæmi til lækkunar á gengi krónunnar myndu verðbólguhorfur versna, og versni verðbólguhorfur mun bankinn bregðast við," sagði Davíð. Edda Rós telur að af orðum Davíðs megi ráða að hraði vaxtalækkunarferilsins sem framundan er ráðist af þróun á gengi krónunnar.

"Við teljum hinsvegar ekki líklegt að krónan muni veikjast nema þá tímabundið þar sem að hinn gríðarlegi vaxtamunur sem til staðar er mun viðhalda áhuga erlendra fjárfesta á krónunni og styðja við gengið," segir Edda Rós. Að hennar mati verður vaxtamunurinn að meðaltali 10% á þessu ári sem mun koma til með að viðhalda áhuga fjárfesta á vaxtamunarviðskipta á borð við útgáfu krónubréfa.