Krónan styrktist um 0,95% gagnvart evru í gær sem að stendur nú í 146,1 krónu. Frá upphafi árs hefur krónan styrkst um tæp 6,5% gagnvart evrunni en við upphaf árs var evran í 156,23 krónum. Krónan hefur ekki mælst sterkari gagnvart evru frá því í byrjun mars á síðasta ári eða þegar COVID faraldurinn var að hefjast.

Krónunni hefur vegnað nokkuð vel það sem af er ári og hefur til að mynda styrkt sig um rúmlega 5% gagnvart Bandaríkjadollara og um 1,5% gagnvart sterlingspundi frá áramótum.

Þá vekur athygli á sama tíma að Seðlabankinn er hættur að kaupa gjaldeyri til að halda aftur af veikingu krónunnar.

Seðlabankinn keypti engan gjaldeyri í maí til að styðja krónuna eftir að hafa stundað reglulega gjaldeyrissölu frá því á síðasta ári. Þvert á móti greip Seðlabankinn tvívegis inn í markaðinn undir lok mánaðarins og keypti gjaldeyri til að hægja á gengisstyrkingu krónunnar.