Viðsnúningur hefur átt sér stað á gjaldeyrismarkaði þótt erfitt sé að segja til um hvort hann sé varanlegur eða aðeins tímabundið hik í gengislækkunarferli, segir greiningardeild Glitnis.

Gengisvísitalan er 128 stig en til samanburðar var hún 138 stig snemma morguns á föstudag og hefur gengi krónunnar styrkst um tæp 8% á aðeins rúmum tveimur dögum, að sögn greiningardeildar.

Gengi krónunnar tók að hækka hratt á föstudaginn í miklum viðskiptum eftir verulega gengislækkun síðustu vikurnar.

Sú hækkun hélt áfram í gær í óverulegum viðskiptum. Í morgun hefur gengi krónunnar svo hækkað hratt áfram og í talsverðum viðskiptum.

Gengisvísitala krónunnar á bilinu 120 til 130 stig stuðlar að jafnvægi á utanríkisviðskiptum til skemmri tíma litið og er gengi krónunnar innan þess bils um þessar mundir.

Hætt er þó við yfirskoti á gjaldeyrismarkaði við núverandi aðstæður en ljóst er að slíkt myndi knýja fram hraða leiðréttingu á þeim mikla viðskiptahalla sem ríkir um þessar mundir.

Reikna má með sveiflum á gjaldeyrismarkaði á næstu dögum, segir greiningardeildin.