Hlutfall íslenskra kvenna sem ljúka doktorsprófi hækkar. Árið 2003 voru konur 40% útskrifaðra en árið 2004 hækkaði þessi tala upp í 46%. Útskriftir íslenskra doktora voru fleiri árið 2004 samanborðið við árið á undan. Árið 2003 luku 35 doktorsprófi en árið 2004 voru útskrifaðir 37 talsins. Þetta kemur fram í samantekt Rannís fyrir árið 2004 á fjölda útskrifaðra íslenskra doktora.

Árið 2002 er enn metár því þá luku 48 Íslendingar doktorsnámi. Lítil breyting hefur orðið á vali Íslendinga á námslöndum. Tæp 40% íslenskra doktorsnema útskrifast frá bandarískum háskólum og um fimmtungur útskrifast frá háskólum á Norðurlöndunum. Fjölgun hefur orðið á útskriftum frá íslenskum háskólum, þ.e. frá Háskóla Íslands en það er eini háskólinn hér á landi sem hefur hingað til útskrifað doktora. Kennaraháskóli Íslands býður einnig upp á doktorsnám. Árið 2004 útskrifuðust fimm konur og fimm karlar frá Háskóla Íslands, en árið 2003 útskrifuðust níu og sex árið 2002.

Fjöldi útskifaðra kvenna hefur aukist milli ára. Konur eru einnig meirihluti þeirra sem skráðir eru í doktorsnám á Íslandi. Alls eru 144 skráðir í doktorsnámi, sem er mikil aukning frá árinu 2003 þegar fjöldinn reyndist vera 114. Af þessum 144 eru 60% skráðra konur. Athyglisverður munur er á kynjunum því stór hluti kvenna leggur stund á grein innan heilbrigðisvísinda meðan karlar velja flestir grein innan raunvísinda. Þessi munur á kynjunum hefur haldist frá árinu 2003 segir í fréttabréfi Rannís.