Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Mesta veltan eða um 1,2 milljarðar, var með hlutabréf Kviku banka sem tilkynnti í gær um að ákveðið hafi verið að ganga að tilboði Landsbankans í TM. Kaupverðið nemur 28,6 milljörðum.

Hlutabréfaverð Kviku hækkaði um 4,4% og stendur nú í 15,55 krónum á hlut. Gengi bankans er eigi að síður 10% lægra en í upphafi árs. Auk Kviku þá hækkaði gengi hlutabréfa Arion og Ísfélagsins um eitt prósent í dag.

Hlutabréf Hampiðjunnar lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 4,7% í 160 milljóna veltu. Gengi félagsins var síðast hærra um miðjan janúarmánuð.