Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nú að leggja lokahöld á skýrslu sína um þjóðhagslega arðsemi styrkja til kvikmyndagerðar. Á meðal niðurstaðna skýrslunnar eru að styrkirnir séu ekki hagkvæmir þegar litið er til áhrifa þeirra á hagkerfið í heild.

Hagfræðingur sem Viðskiptablaðið ræddi við, en vill ekki koma fram undir nafni, segir að þó ýmis menningarleg rök geti verið fyrir því að styrkja íslenska kvikmyndagerð þá sé í besta falli meinloka að tala um að hver króna í opinberum kvikmyndastyrkjum komi margfalt til baka.

"Ef þú styrkir eina atvinnugrein, þá ertu ekki að styrkja aðrar. Og einhvers staðar koma peningarnir frá. Þau störf sem myndast í kvikmyndagerð myndast þá ekki annars staðar, það er bara þannig," segir hagfræðingurinn.

Styrkirnir óréttlátanlegir

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ómyrk í máli þegar hún er spurð um skoðun hennar á niðurgreiðslunum. „Ég tel að það sé ekki hægt að réttlæta þær með nokkru móti. Þær eru til þess fallnar að skekkja samkeppnisstöðuna á listamarkaði,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .