Í nýrri launakönnun VR kemur meðal annars fram að launamunur kynjanna helst óbreyttur. Konur eru að jafnaði með 14,2% lægri heildarlaun en karlar og kynbundinn launamunur, þ.e. launamunur sem er ekki hægt að skýra með neinu öðru en kynferði, er 10% en var 9,9% í síðustu könnun.

VR kannaði einnig mun á grunnlaunum og þar kom fram að konur eru með 12,2% lægri laun en karlar. Mikill munur er líka á kynjunum varðandi hlunnindi á borð við símakostnað, líkamsræktarstyrki eða gsm síma. Ef konur innan VR fengju sömu laun og karlar í félaginu jafngildir núverandi launamunur því að konur séu „launalausar“ í 36 daga í ár.

Heildarlaun VR félaga hækkuðu um 15,8%

Frá janúar 2015 til apríl 2016 hækkuðu grunnlaun félagsmanna um 14,3% og heildarlaun um 15,8%. Þessi launahækkun er í takt við breytingar á launavísitölu Hagstofu Íslands.

Fordómar og fjölbreytileiki á vinnustað

Einnig kom fram í könnuninni að einn af hverjum fjórum félagsmönnum VR hefur orðið fyrir fordómum í vinnu einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum tuttugu yfir síðustu 6 mánuði. Þó kemur einnig fram að hátt í 80% telja aukinn fjölbreytileika hafa jákvæð áhrif á vinnustaðinn.

65% fara í starfsmanna- eða launaviðtal


Í könnuninni kemur fram að 65% svarenda fóru í starfsmanna- og/eða launaviðtal á síðasta ári en liðlega þriðjungur fór ekki. Þeir sem fóru í viðtal á síðasta ári eru að jafnaði með 5% hærri laun en þeir sem fóru ekki í viðtal.