*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 10. maí 2021 16:33

Kynleiðréttingaraðgerð telst aðkallandi

Transmaður á rétt á launum í veikindaleyfi sem til var komið vegna kynleiðréttingaraðgerðar. Vinnuveitandi vildi ekki greiða.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Transmaður á rétt á launum frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum vegna tveggja mánaða fjarveru úr vinnu í kjölfar kynleiðréttingaraðgerðar. Þetta felst í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Vinnuveitandi mannsins taldi að um brotthlaup úr starfi hefði verið að ræða og að sér hefði ekki verið skylt að greiða honum laun. Málið er áhugavert fyrir þær sakir að ekki hefur reynt á slíkt álitamál í íslenskum vinnurétti hingað til.

Maðurinn hafði ráðið sig til starfa hjá félaginu árið 2015 og starfað þar í hlutastarfi. Um miðjan janúar í fyrra óskaði hann eftir tveggja mánaða leyfi vegna veikinda þar sem fyrir lá að hann var á leið í brjóstnám. Vinnuveitandinn féllst á það en með því skilyrði að um launalaust leyfi væri að ræða. Fyrir lok mánaðar var manninum hins vegar sagt upp störfum og þess óskað að hann mætti aftur að loknu veikindaleyfi til að vinna uppsagnarfrest sinn.

Í málinu hafði maðurinn skilað læknisvottorði vegna óvinnufærni í tengslum við aðgerðina en þrátt fyrir það ekki fengið greidd laun sem hann átti rétt á í samræmi við kjarasamning. Stefndi hann því félaginu til greiðslu launa af þessum sökum. Að meðaltali hafi hann unnið um 18 dagvinnutíma í mánuði og 72 eftirvinnutíma. Krafa vegna launa og orlofs fyrir mánuðina tvo nam því rúmum 479 þúsund krónum.

Vinnuveitandi taldi aðgerðina valkvæða

Vinnuveitandinn byggði aftur á móti á því í fyrsta lagi að maðurinn hefði ekki verið óvinnufær vegna sjúkdóms. Ekkert lægi fyrir um að aðgerðin hefði verið aðkallandi eða nauðsynleg heldur hefði þarna verið á ferð „lýtaaðgerð sem [maðurinn] hefði sjálfur ákveðið að gangast undir á uppsagnarfresti“. Valkvæðar aðgerðir gætu ekki skapað grundvöll til veikindalauna. Því til viðbótar hefði maðurinn ekki mætt aftur til starfa þegar heilsa leyfði og því gerst sekur um brotthlaup úr starfi.

Í málinu lágu fyrir læknisvottorð lýtalæknis og geðlæknis. Í vottorði þess síðarnefnda sagði að brjóstnám væri óaðskiljanlegur hluti transferlis líkt og hormónameðferð, greining og viðtöl. Hún væri greidd af sjúkratryggingum og hefði sérstakt sjúkdómsnúmer. Þá gáfu læknarnir tveir einnig vitnaskýrslu við meðferð málsins.

Meðferðin til þess fallin að bæta líðan einstaklinga

Í niðurstöðu dómsins sagði að fyrir dóminn hefðu verið lögð vottorð um að maðurinn hefði verið haldinn sjúkdóminum „transsexualismus“ og engin framlögð gögn vinnuveitandans hefðu hróflað við því mati. Sjúkdómshugtak vinnuréttarins sé aftur á móti stundum þrengra en læknisfræðinnar en að mati dómsins var ljóst að umræddur sjúkdómur félli undir gildissvið vinnuréttarins.

Vinnuveitandinn mótmælti því einnig að umræddur sjúkdómur hefði getað valdið óvinnufærni. Vitnisburður læknanna tveggja var aftur á móti á annan veg og studdu þeir það mat sitt með fræðarannsóknum. Transeinstaklingar upplifðu bætta andlega líðan að meðferð lokinni, eftir aðgerð myndi samfélagsþátttaka þeirra almennt aukast og þá drægi úr sjálfsvígstíðni eftir meðferð. Af þeim sökum hefði meðferðin vissulega verið aðkallandi og nauðsynleg.

Dómurinn taldi að ekkert hefði komið fram sem hnekkt gæti þessu mati læknanna. Þá hefði málsástæðu um brotthlaup úr starfi ekki tæk þar sem fyrst hefði verið hreyft við henni um sjö mánuðum eftir að atvik máls áttu sér stað. Tómlæti þar að lútandi hefði þýtt að möguleg krafa vegna brotthlaups úr starfi var niður fallinn. Að endingu var ekki fallist á að manninum hefði borið að takmarka tjón sitt með greiðslum úr sjúkrasjóði þar sem hér var ekki skaðabótakrafa á ferð heldur krafa um efndir samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi.

Krafa mannsins var því að fullu tekin til greina og vinnuveitandinn að auki dæmdur til að greiða honum 950 þúsund krónur í málskostnað. Rétt er að geta þess að dómur í málinu var ekki fjölskipaður heldur aðeins skipaður einum embættisdómara.

Blaðamaður vill taka það fram að hann er því alls óvanur að fjalla um málsatvik sem þessi og því mögulegt að persónufornöfn og meðferð kyns hafi misfarist. Hafi lesendur athugasemdir þar að lútandi er þeim bent á að koma beiðni um leiðréttingu á framfæri á netfangið hér að ofan og verður það lagfært sem betur má fara.