Ný rannsókn á starfsemi mannsheilans kann að varpa ljósi á það hvað á sér stað í heilabúi fjármálafakíra heimsins þegar þeir leggja milljarða að veði í áhættusömum fjármálagerningum. Það er einn helsti frumkraftur mannlegrar hegðunar: kynhvötin.

Rannsóknin var unnin af fræðimönnum við Stanford-háskóla og Northwestern-háskóla í Bandaríkjunum.

Þegar ungum karlmönnum voru sýndar eggjandi myndir reyndust þeir mun líklegri til þess að taka áhættusamar ákvarðanir um fjármál en ef þeim voru sýndar myndir af einhverju hættulegu eins og eiturnöðru eða hlutlausu eins og pappírsheftara. Heilamyndataka leiddi í ljós að hinar eggjandi myndir örvuðu sömu staðo í heilanum og þegar fjárhagsleg áhætta er tekin.

„Út frá þróunarkenningunni þarfnast karlar bæði kvenna og fjár," segir Camelia Kuhnen, prófessor við Northwestern-háskóla, en niðurstöður rannsóknar hennar og Brian Knutson, kollega hennar við Stanford, eru birtar í nýjasta hefti fræðiritsins NeuroReport.

Niðurstöðurnar benda til þess að hvatir og tilfinningar geti haft mun meiri áhrif á ákvarðanir af þessu tagi en nokkurn grunaði og að þar búi ekki endilega sú rökhyggja að baki, sem flestir myndu vænta af ábyrgum fjármálamönnum.

Rannsóknin tók ekki til kvenna og ákvarðanatöku þeirra, m.a. vegna þess að erfiðlega gekk að finna myndir, sem höfðuðu jafneindregið til kynhvatar breiðs hóps kvenna og hjá körlunum.

Kevin McCabe, prófessor í hagfræði, lögum og taugalíffræði við George Mason háskóla, var ekki aðili að rannsókninni en segir niðurstöðurnar ekki þurfa að koma á óvart; tengingin milli græðgi og losta hafi verið mönnum ljós frá alda öðli. Karlar hafi um hundruð þúsunda ára þurft að sanna hæfni sína til þess að draga björg í bú til þess að heilla konur og auka þannig vinningslíkur sínar í þróunarsöguhappdrættinu.

„Það að taka áhættu er eðlileg leið til þess að auka hlutfallslegan ávinning, en það getur vitaskuld einnig kostað sitt þegar illa fer," segir McCabe og bendir á hræringarnar, sem nú eiga sér stað í fjármálaheiminum.

Fjármálaverkamönnum virðist ekki heldur koma rannsóknin á óvart og benda sumir á að orðfæri það, sem menn nota á gólfinu, smitist einatt yfir í rúmið og öfugt. „Menn "stræka dílinn" bæði við viðskiptavini og bólfélaga," segir ónefndur íslenskur athafnamaður í Lundúnum í samtali við Viðskiptablaðið og gat nefnt ýmis óprenthæfari dæmi þar um.

Tilboðin geta verið „sexí" en svo geta menn líka verið „teknir í bakaríið", sem vitaskuld er sársaukafyllra.

Rannsókn þessi kemur heim og saman við fyrri rannsókn, sem leiddi í ljós að karlar auðsýna minni aðgætni á kynferðissviðinu eftir að hafa horft á klámmyndir, og aðra, sem benti til þess að gagnkynhneigðir karlar hefðu minni áhyggjur af fjárhagslegri framtíð sinni eftir að hafa verið sýnd mynd af aðlaðandi konu.

Óbirt rannsókn við Harvard- háskóla sýnir einnig fram á tengsl milli testósterónsmagns og áhættusækni í ákvörðunum. Fyrrgreind rannsókn þeirra Kuhnen og Knutson er hins vegar sú fyrsta, sem sýnir með mælanlegum hætti fram á tengslin milli kynlífs og peninga í heilastöðvum karla.

Orsakasamhengið þarf sjálfsagt að rannsaka betur, en Kuhnen telur að þessar hvatir kunni að hvetja hver aðra. Með því að velgja verðlaunastöðvar heilans með eggjandi myndum hafi verið ýtt undir áhættuhegðan, þó í rauninni sé ferlið yfirleitt á hinn veginn.