Þing Kýpur felldi í kvöld lagafrumvarp sem fól í sér mjög umdeildan skatt á innstæður í þarlendum bönkum. Skatturinn er stór hluti af björgunarpakka sem ríkisstjórn Kýpur samdi um við Evrópusambandið. Í frétt Guardian segir að ákvörðun þingsins auki lýkurnar á því að krísuástand grípi enn á ný evrusvæðið. Þá segir í fréttinni að Kýpur muni í kjölfarið leita á náðir Rússa við fjárhagsaðstoð. Í frétt BBC segir að evrópski seðlabankinn hafi verið fljótur að lýsa því yfir í kvöld að hann myndi styðja við kýpverska banka að því marki sem gildandi reglur leyfðu.

Aðeins er sólarhringur til stefnu, því að öðru óbreyttu eiga kýpverskir bankar að opna á ný á fimmtudag, en fjárhagsstaða þeirra er afar bágborin.

Athygli vekur af þeim 55 þingmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni greiddu 36 þeirra atkvæði gegn frumvarpinu og 19 sátu hjá. Enginn þingmaður greiddi atkvæði með frumvarpinu, sem fól í sér skatta á allar innstæður yfir 20.000 evrum.

Í frétt BBC er haft eftir Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, að honum þætti miður að atkvæðagreiðslan hefði farið eins og hún fór og að hætta sé á að ekki verði hætta á að opna bankana aftur á fimmtudag. Segir Schauble að tveir stórir kýpverskir bankar séu ekki greiðslufærir komi ekki til neyðaraðstoðar frá evrópska seðlabankanum.