Eignir Skúla Þorvaldssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar eru á meðal þeirra eigna sem hafa verið kyrrsettar í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru eignir fleiri en þeirra þriggja kyrrsettar en ekki hefur fengist staðfest um hverja til viðbótar er að ræða.

Hluti kyrrsetninganna voru framkvæmdar á grundvelli réttarbeiðni sem embætti sérstaks saksóknara sendi til rannsóknardómara í Lúxemborg í apríl síðastliðnum. Þær tengjast allar rannsókn þess á meintum brotum sem áttu sér stað innan Kaupþings fyrir og eftir bankahrun. Auk þess er hluti kyrrsetninganna bráðabirgðaaðgerðir sem gripið var til að beiðni yfirvalda í Lúxemborg.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að réttarbeiðni sérstaks saksóknara hafi aðallega snúist um að fá eignir Skúla Þorvaldssonar og félaga sem hann er skráður eigandi að kyrrsettar. Embættið telur að í félögunum sé að finna ágóða af gerningum sem mögulega varða við lög.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.