Seðlabankinn hegðaði sér nokkuð í takt við væntingar markaðsaðila og hækkaði stýrivexti á miðvikudaginn um 50 punkta. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 5,5%. Nýsamþykktir kjarasamningar vega hvað þyngst í ákvörðun Seðlabankans en í Peningamálum segir m.a. að launahækkanir í samningunum séu rúmlega þriðjungi meiri en gert var ráð fyrir í maíspánni. Í nýrri spá bankans er gert ráð fyrir að nafnlaun hækki að meðaltali um 8,5% á ári út samningstímann sem er til ársloka 2018 í stað 5,5% í síðustu spá.

Spurður að því hvort vextir hefðu hækkað enn meira ef ekki hefði komið til lækkunar innflutningsverðs segir Már að erfitt sé að segja til um það. „Ef og sé og ef að mundi, átján skott á hundi,“ sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið þegar hann hafði lokið við að kynna vaxtaákvörðunina.

„Það er náttúrulega augljóst að lækkandi innflutningsverð og þessi alþjóðlega þróun er að bæta viðskiptakjör okkar og gætu gert það enn frekar.Efnahagur Kína er að veikjast og það heldur eftir eftirspurn eftir olíu auk þess sem innkoma Írans á olíumarkaðinn spilar þar inn. Það að gengi júansins hafi lækkað og allar myntir í framleiðslukeðju Kína gerir útflutning á vörum sem Kína framleiðir ódýrari í kjölfarið. Það dregur úr verðbólguþrýstingi og gerir það að verkum að við þolum meiri launahækkanir en ella og það hefur áhrif á vaxtastigið niður á við. Auðvitað horfum við á það og tökum tillit til þess í matinu á raunvaxtarstiginu. Hvað það þýðir fyrir þessa ákvörðun er erfitt að segja en það þýðir að vextir verða í ferlinu lægri en ella.“

Treystið þið á áframhaldandi verðhjöðnun erlendis?

„Nei, það gerum við ekki,“ segir Már. „Við erum búin að hækka vexti um eitt prósentustig í tveimur ákvörðunum sem er mjög mikið. Við höfum fullt svigrúm til að bregðast við í september, október og desember eftir því sem þessu vindur fram. Við byggjum á spám og því sem er líklegast en að lokum er raunveruleikinn lokadómarinn um það hvar við eigum að hafa aðalstigið að lokum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .