„Ég styð allar góðar aðgerðir til að efla hlut kvenna í atvinnulífinu. Ef þessi lánastarfsemi leiðir til aukinna umsvifa kvenna vítt og breitt um landið og eykur tækifæri þeirra þá er það fagnaðarefni,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, í samtali við Fréttablaðið.

Þar kemur fram að Byggðastofnun hafi sett á stofn nýjan lánaflokk þar sem lán verða aðeins veitt fyrirtækjum sem eru að minnsta kosti í helmingseigu kvenna og undir stjórn kvenna. Lán eru veitt upp á allt að tíu milljónum króna og eru gerðar minni kröfur um veð auk þess sem vextir eru hagstæðari en venjubundið er.

„Þessu verkefni Byggðastofnunar er ætlað að ýta sérstaklega undir sprotafyrirtæki kvenna, en konur eru aðeins um 5% aðalumsækjenda um lán hjá stofnuninni. Í mörgum byggðum er vinnumarkaðurinn tiltölulega einsleitur og oft mjög kynskiptur,“ segir Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, í samtali við Fréttablaðið.