Ríkiskaup hafa birt tilboð sem bárust ríkinu vegna lóðaframkvæmda vegna gatna, göngustíga, bílastæða og grænna svæða ásamt jarðvinnu fyrir sjúkrahótel nýs Landspítala. Tilboðin eru birt á vef stofnunarinnar .

Í heildina bárust þrjú tilboð og verður á næstu dögum farið yfir tilboðin með tilliti til útboðsreglna. Lægsta tilboð átti Rökkvi verktakar ehf. og var heildartilboðsfjárhæð 300.184.050 krónur. Kostnaðaráætlun ríkisins vegna framkvæmdanna gerir hins vegar ráð fyrir kostnaði upp á 256.083.260 krónur og er lægsta tilboð því 17% hærra en áætlunin gerir ráð fyrir.

GT hreinsun ehf. bauð 367.396.031 krónur, en hæsta tilboðið áttu Íslenskir aðalverktakar sem buðu 425.711.476 krónur. Er hæsta boð þannig 66% yfir kostnaðaráætlun.

Áætlað er að bygging nýs Landspítala muni kosta 57,4 milljarða króna í heildina. Verði kostnaðurinn 17% hærri, líkt og lægsta boð í þennan hluta framkvæmdanna, myndi kostnaðurinn í heild hins vegar nema 67,2 milljörðum króna, eða 9,8 milljörðum hærri en kostnaðaráætlun.

Landspítalinn hefur sent frá sér tilkynningu vegna útboðsins. Öllum tilboðum hefur verið hafnað.