*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 6. desember 2021 14:02

Lækka álögur á atvinnuhúsnæði

FA segir að sérstaða Reykjavíkurborgar þegar kemur að háum fasteingasköttum á atvinnuhúsnæði sé að aukast.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fimm af tólf stærstu sveitarfélögum landsins munu lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á næsta ári, samkvæmt frumvörpum til fjárhagsáætlana sem eru nú alls staðar komin fram. Þetta kemur fram í samantekt Félags atvinnurekenda, FA. 

Umrædd fimm sveitarfélög eru Kópavogsbær Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjarbær. Öll fimm lækka einnig álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði. 

Tvö sveitarfélög, Hafnarfjarðarkaupstaður og Fjarðabyggð, lækka álagningarprósentu á íbúðarhúsnæði en halda álagningu á atvinnuhúsnæði óbreyttu.

FA beinir sérstaklega athygli að „sérstöðu“ Reykjavíkurborgar sem innheimtir hærra hlutfall af fasteignamati atvinnuhúsnæðis í fasteignaskatt en nágrannasveitarfélög. Álagningarhlutfall atvinnuhúsnæðis í Reykjavík nemur nú 1,60%.

Sjá einnig: Óbreyttir fasteignaskattar vonbrigði

Bent er þó á að þrátt fyrir lægra álagningarhlutfall þá hækka tekjur sveitarfélaganna af atvinnueignum nokkuð umfram verðbólgu vegna verulegra hækkana á fasteignamati á milli ára. Einungis í Vestamannaeyjum, sem lækkaði álagningarhlutfallið um 0,1 prósentustig, lækka tekjur af atvinnueignum á milli ára. 

Mesta hækkunin á tekjum af atvinnueignum meðal sveitarfélaga sem ekki hreyfa skattprósentuna er í Árborg en þar nemur tekjuaukningin tæpum 11%. Þar á eftir kemur Akranes með 8,7% og svo Fjarðabyggð og Seltjarnarnes með 8%. FA tekur þó fram að Seltjarnarnes hafi haft um árabil langlægsta fasteignaskattinn á atvinnuhúsnæði meðal fjölmennari sveitarfélaga.

„Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum, með hækkandi fasteignamati, fengið gífurlegar fjárhæðir í formi hærri skatta á atvinnuhúsnæði. Á árunum 2015-2020 hækkuðu skattgreiðslur fyrirtækjanna í landinu til sveitarfélaga vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði um 68%, eða 11,5 milljarða. Nú þegar atvinnulífið er að reyna að ná sér á strik eftir eina dýpstu kreppu síðustu ára er alveg fráleitt að skattbyrði fyrirtækjanna þyngist enn. Einkum og sér í lagi í ferðaþjónustu eru mörg dæmi um að atvinnurekendur hafi litlar eða einfaldlega engar tekjur af fasteignum sínum, en þeim er samt gert að borga af þeim síhækkandi skatt,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, á vef samtakanna.

Samanburður FA á álagningu fasteignaskatta tólf stærstu sveitarfélaganna. Mynd tekin af vefsíðu FA