Hlutabréfaverð nokkurra félaga í Kauphöll Íslands hefur lækkað töluvert það sem af er degi, en velta á hlutabréfamarkaði þegar þetta er skrifað nemur rétt rúmum milljarði króna. Gengi bréfa Eimskips hefur lækkað um 3,09%, Össurar um 2,56% og Regins um 1,69%. Þá hefur gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, lækkað um 0,74%. Eitt félag hefur hækkað í verði, en gengi bréfa Icelandair hefur hækkað um 1,57%.

Þetta er fyrsti viðskiptadagur eftir kosningar, en fara ber þó varlega í að draga þá ályktun að lækkunirnar séu viðbrögð markaða við niðurstöðu þeirra. Í síðustu viku kom út ársfjórðungsuppgjör Össurar og olli það vonbrigðum. Þá kom út verðmat Íslandsbanka á Fjarskiptum, þar sem mælt var með sölu á bréfum félagsins.

Lækkunin á bréfum Eimskips kemur nokkuð á óvart, en ekki er ólíklegt að hún tengist endurútgáfu á verðmati Arion banka á félaginu. Eftir að greint var frá afslætti sem félagið hefur fengið af samningsverði tveggja nýrra skipa var send út endurskoðað verðmat. verðmatið gerir ennþá ráð fyrir því að rétt verð bréfanna sé lægra en markaðsverð, en matið er þó í grunninn það sama og hið fyrra mat.