Eftir 3,25% lækkun í dag stendur gengi bréfa Apple nú í 250,04 dölum og heildarmarkaðsvirðið í um það bil 1,09 billjón dollurum, eftir tæplega 16,6% hækkun frá lægsta punkti á mánudag. Heildarmarkaðsvirði Apple fór fyrst yfir billjón dollara markið í október síðastliðnum en þegar það fór hæst nam það 1,4 billjón dala, 12. febrúar síðastliðinn.

Við lokun markaða síðastliðinn mánudag var markaðsvirði Apple komið niður fyrir billjón dollara og varð Microsoft þar með eina bandaríska fyrirtækið í „billjón dollara klúbbnum“, þó það hafi ekki varið lengi. Kórónuveiran hefur haft sín áhrif á hlutabréfaverð Apple, líkt og hjá fjölda annarra fyrirtækja víða um heim, en verðið hækkaði nokkuð síðan á mánudag þó það hafi farið lækkandi á ný í dag.

Einungis fjögur bandarísk félög hafa náð heildarmarkaðsvirði sem er yfir einni billjón dala, eða þúsund milljörðum dala sem samsvarar yfir 140 þúsund milljörðum íslenskra króna, en hin tvö eru Alphabet, móðurfélag Google, og Amazon.com, sem bæði eru undir markinu nú, Alphabet töluvert er töluvert lengra frá eða í 766 milljónum dala, en gengi félagsins hefur lækkað um 4,24% það sem af er viðskiptadegi niður í 1.114,64 dali. Heildarhækkunin í vikunni nemur 10,3%, en lægst fór gengið í 1.010,75 dollara á mánudag.

Frá þeim tímapunkti og þangað til gengi Apple fór sem lægst á mánudaginn þegar WSJ tók tölurnar saman hafði lækkun félagsins numið 31%, en á sama tímabili hafði S&P 500 vísitalan fallið um 34%. Þó hefur fall fyrirtækja í teiknigeiranum ekki verið jafnhátt og fyrirtækja til að mynda í orkugeiranum eða fjármálaþjónustu ýmis konar.

Apple var fyrsta stóra bandaríska félagið til að vara við því að afkomuspár félagsins fyrir árið myndu ekki nást, og tilkynnti félagið um það 17. febrúar síðastliðinn. Félagið náði að opna verslanir sínar í Kína fyrr í mánuðinum sem það hafði lokað til að hjálpa til við að draga úr dreifingu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum, og á uppruna sinn þar í landi. Í síðustu viku tilkynnti félagið hins vegar að það hefði lokað öllum verslunum sínum utan Kína, ótímabundið.

Microsoft hefur lækkaði í dag um 3,10%, niður í 151,28 dali hvert bréf og 1,15 billjónir dollara í heildarmarkaðsvirði, en gengið fór lægst í 137,12 dali á mánudaginn, en hefur hækkað um 10,3% síðan þá. Amazon hefur lækkað um 1,95% í dag, niður í 1.917,19 dali hvert bréf þegar þetta er skrifað, en heildarmarkaðsvirði félagsins er undir billjón dala virðinu eða í 954,45 milljörðum Bandaríkjadollara. Það eftir að hafa hækkað frá 1.829,10 dölum á mánudaginn eða um rétt rúmlega 4,8%, þar til nú.