*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 8. apríl 2019 15:20

Lækkun bankaskatts lögð fram á þingi

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af skattinum muni dragast saman um 18,3 milljarða næstu fjögur ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

 

Bankaskatturinn verður lækkaður í þrepum á næstu þremur árum. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs muni samhliða lækka um 18,3 milljarða næstu fjögur ár. Frumvarp þessa efnis var lagt fram á Alþingi í dag.

Bankaskatturinn svokallaði byggir á bókfærðu virði skulda, að skattskuldum frátöldum, umfram 50 milljarða króna í lok hvers árs og er greiddur árlega. Skatturinn fellur undir ófrádráttarbært gjald til tekjuskatts. Skattprósentan er sem stendur 0,376. Tekjur ríkisins af skattinum árin 2013-2017 voru tæpir níutíu milljarðar króna.

Lengi hefur legið fyrir að lækka eigi skattinn til að auka skilvirkni í fjármálakerfinu og lækka kostnað neytenda. Í fjármálaáætlun 2016-2020 var gert ráð fyrir því að skatthlutfallið héldist óbreytt árin 2017-19 meðan framleiðsluspenna og þensla gengi yfir í hagkerfinu og ríkissjóður væri enn að greiða niður skuldir.

Samkvæmt frumvarpinu mun gjaldhlutfallið lækka um næstu áramót niður í 0,318 prósent. Ári síðar lækkar það um rúmlega hálft prósentustig og verður síðan 0,203 prósent árið 2022. Að endingu, árið 2023, verður það 0,145 prósent.

Bankarnir hafa reglulega kallað eftir lækkun á skattinum enda skekki hann samkeppnisstöðu þeirra. Slíkt sé bagalegt þegar samkeppni aukist erlendis frá og miklar breytingar séu að verða í fjármálaþjónustu.

„Í hvítbókinni er jafnframt bent á að fyrirhuguð lækkun [...] mun skila álíka lækkun í rekstrarkostnaði og ef starfsfólki stóru bankanna þriggja myndi fækka um 15% eða sem jafngildir 400 stöðugildum. Það er því ljóst að sértækir skattar hafa veruleg áhrif á getu bankanna til að bjóða viðskiptavinum betri kjör og skekkir samkeppnisstöðuna á fjármálamarkaði verulega,“ sagði Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, á aðalfundi Landsbankans í liðinni viku.

 

Stikkorð: Alþingi skattar bankar