Húsnæðisverð í Bretlandi lækkaði um 1% í júlímánuði, en það er mesta lækkun þess síðan í febrúarmánuði. Er lækkunin viðsnúningur frá júnímánuði þegar það hækkaði um 1,2%. Þetta kemur fram í tölum frá húsnæðislánveitandanum Halifax.

Ef miðað er við maí, júní og júlímánuð hefur húsnæðisverðið þó hækkað um 1,6% og ef miðað er við fyrir ári síðan hefur það hækkað um 7,8%. Er meðalverðið komið í 214,678 pund, sem samsvarar um 34 milljónum íslenskra króna.

„Það eru merki um að það sé að hægjast á hækkunum á húsnæðisverði,“ sagði Martin Ellis, hagfræðingur hjá Halifax. Þó tekur hann fram að tölur sem ná aðeins yfir einn mánuð geti verið lítið að marka „Enn er of snemmt að ákveða ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrsögn Bretlands úr ESB hafi mikil áhrif.“