Almenn stjórnarstörf í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum eru um þessar mundir í uppnámi í kjölfar þess að ekki tókst að kjósa nýja stjórn á aðalfundi félagsins 6. júlí sl. Nú er svo komið að lagaleg óvissa ríkir um hver skuli fara með stjórnarstörf á meðan beðið er úrlausnar í deilumáli sem lítur að stjórnarkjörinu.

Forsögu málsins kannast margir við en deilur komu upp á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði. Svo fór að tvisvar var kosið í stjórnina og hefur Hlutafélagaskrá RSK því borist tvær tilkynningar um nýtt stjórnarkjör og bíða hluthafar því eftir niðurstöðu yfirstandandi rannsóknar Hlutafélagaskrár á málinu. Niðurstað­an hefur ekki enn borist og segir talsmaður minnihluta hluthafa að hópurinn hafi fengið þær upplýsingar að efnisleg meðferð málsins geti dregist þar sem ekkert sambærilegt mál hefur áður komiðinn á borð Hlutafélagaskrár.

Málið er bagalegt fyrir félagið sem hefur staðið í miklum fjárfestingum og framkvæmdum undanfarið enda ekki með fullu ljóst hvort í félaginu sé nú stjórn með virkt umboð og staðan því að flestra mati óviðunandi. Að sögn talsmanns minnihluta hlutahafa í félaginu hefur ekki verið gengið endanlega frá fjármögnun framkvæmdanna og ríkir vafi um hvort framkvæmdastjóri geti fengið staðfestingu stjórnar fyrir slíkum aðgerðum á meðan óvissan er uppi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.