VR og Félag atvinnurekenda (FA) skrifuðu undir nýjan kjarasamning í morgun, föstudaginn 13. maí. Í frétt á heimasíðu VR kemur fram að samningurinn er sambærilegur við nýgerðan kjarasamning VR og SA og gerir ráð fyrir sambærilegum hækkunum launa á sama tíma.

Lágmarkstaxti verður þó 202 þúsund frá 1. júní næstkomandi.  Þessi samningur tekur til innan við 10% félagsmanna VR, langflestir vinna samkvæmt samningi við Samtök atvinnulífsins.

Eingreiðsla 1. júní  mun nema 50.000 krónum fyrir starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðunum mars - maí. Starfsmenn í hlutastarfi fá hlutfallslegar greiðslur m.v. starfshutfall hvers og eins. Álag á orlofsuppbót 2011 er tíu þúsund krónur. Álag á desemberuppbót í ár er fimmtán þúsund krónur.

Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna eins fljótt og auðið er.

Helstu atriði samningsins

Launabreytingar þeirra sem ekki fá greitt skv. lágmarkstaxta:
1. júní 2011          4,25%
1. febrúar 2012    3,50%
1. febrúar 2013    3,25%

Lágmarkstaxtar hækka sem hér segir:
1. júní 2011          kr. 12.000
1. febrúar 2012    kr. 11.000
1. febrúar 2013    kr. 11.000

Lágmarkstaxti fyrir fullt starf verður:
1. júní 2011         kr. 202.000
1. febrúar 2012   kr. 213.000
1. febrúar 2013   kr. 224.000