Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað lítillega síðustu vikur en er þó enn mjög lágt sögulega séð.  Meðalverð í ágúst var 1.570 dollarar á tonnið og hefur ekki verið lægra síðan í maí 2009 þegar alþjóðafjármálakreppan stóð yfir. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem kom út í dag.

Lágt álverð hefur komið niður á rekstri og afkomu álfyrirtækja. Hlutabréf Alcoa, sem m.a. á og rekur Reyðarál, heur lækkað töluvert samfara lækkun álverðs síðustu mánuði, en á síðustu tíu mánuðum hefur það lækkað um 43%.

Einnig kemur fram í Hagsjá Landsbankans að vegna þess að íslensku álverin eru að fullu í eigu erlendra aðila þá eru áhrif hækkunar heimsmarkaðsverðs á áli minni en ella. Innlendur kostnaður sem álverin bera er að miklu leyti fastur eða lítið háður álverði, þ.m.t. laun og hluti raforkukostnaðar. Það er þó ljóst að umtalsverður hluti raforkostnaðar er háður álverði en markvisst hefur verið unnið í því að draga úr tengingu álverðs og raforkukostnaðar á vegum Landsvirkjunar.

Álverið í Straumsvík tilkynnti einnig í síðustu viku að heimsmarkaðsverð á áli væri orðið svo lágt að það væri rekið með tapi.