Auðlindastefnunefnd leggur til í nýrri skýrslu að renta af nýtingu auðlinda landsins, svo sem kolvetnis undir hafsbotni, náma eða olíu, renni í Auðlindasjóð sem hefði það að markmiði að ávaxta hlut auðlindaarðsins í þágu komandi kynslóða. Fyrirmyndin eru erlendir auðlindasjóðir, s.s. norski olíusjóðurinn sem hefur verið kallaður „lífeyrissjóður norsku þjóðarinnar.“

Skýrslan sem fjallar um stefnumörkun í auðlindamálum, var kynnt á málþingi forsætisráðuneytis um auðlindamál í morgun.

Auðlindaarðinum af olíulindum Norðmanna var fyrst varið til að greiða niður skuldir ríkisins og síðan því lauk hefur hann verið ávaxtaður með fjárfestingum undir stjórn sérstakrar deildar í norska seðlabankanum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur viðrað svipaðar hugmyndir um væntan arð af orkusölu Landsvirkjunar .

Í skýrslunni sem kynnt var í morgun segir m.a.:

„Í framtíðinni má [...] gera ráð fyrir að ráðstöfun tekna ríkisins sem birtar eru í Auðlindareikningi verði þrenns konar. Í fyrsta lagi gegnumstreymi auðlindaarðs vegna endurnýjanlegra auðlinda sem ráðstafað verði til skilgreindra verkefna og málaflokka samkvæmt ákvörðun fjárveitingavaldsins. Í öðru lagi ráðstöfun auðlindaarðs til rannsókna á auðlindum og hagkvæmari nýtingar þeirra. Í þriðja lagi ráðstöfun auðlindaarðs vegna óendurnýjanlegra auðlinda í Auðlindasjóð.“

Í skýrslunni er lagt til að Auðlindareikningur verði hluti ríkisreiknings. Þær tekjur ríkisins sem telja megi upprunnar í auðlindaarði þjóðarinnar verði þá teknar saman og birtar sérstaklega í Auðlindareikningi.