Útlit er fyrir að EBITDA Eimskip fyrir árið 2019 verði um 49-50 milljónir evra sem er lakara en stjórnendur félagsins höfðu gert ráð fyrir en uppfærð EBITDA spá fyrir síðasta ári gerði ráð fyrir EBITDA upp á 52-55 milljónir evra. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem Eimskip sendi frá sér í gærkvöldi.

Í viðvöruninni segir að helstu ástæður fyrir verri afkomu sé minna magn í gámasiglingakerfi félagsins sem var um 10% lægra á fjórða ársfjórðungi miðað við sama tíma árið á undan og varð sú minnkun að megninu til á síðustu vikum ársins. Skýringar má helst rekja til minni innflutnings til Íslands en búist var við og minni veiða við Ísland á tímabilinu sem leiddi til mun minni útflutnings auk neikvæðra áhrifa á umsvif í akstri innanlands.

Þar að auki reyndist einskiptis kostnaður vegna lokunar skrifstofu félagsins í Belgíu hærri en gert var ráð fyrir og þá féll til töluverður kostnaður þegar að Eimskip færði viðkomur til nýs þjónustuaðila í Rotterdam fyrr en áætlað var vegna lokunar og verkfalla hjá þáverandi þjónustuaðila.