Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) lánaði fyrst um 850 milljónir dollara, um 112 milljarða, hingað til lands snemma árs 2009. Það var fyrsti hluti um 2,1 milljarðs dollara láns frá sjóðnum hingað til lands.

Sjóðurinn samþykkti síðan 28. október í fyrra að lána 167,5 milljónir dollara, um 22 milljarða króna, til viðbótar. Samtals hefur IMF nú þegar lánað um 1.017,5 milljónir dollara, eða um 135 milljarða króna, hingað til lands.

Fyrsti hluti um 625 milljóna evra láns frá Norðurlöndunum hefur þegar verið greiddur. Samkvæmt frétt frá Seðlabanka Íslands 21. desember í fyrra voru 300 milljónir evra, um 55 milljarðar króna, greiddar hingað til lands.

Samtals hefur Ísland heimild til að nýta um 444 milljónir evra fram að næstu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og IMF sem ráðgert er að verði síðar í þessum mánuði. Óljóst er þó á þessu stigi hvort synjun forseta Íslands á lögum um Icesave munu hafa þau áhrif að endurskoðunin tefst.

Pólverjar hafa einnig samþykkt að lána Íslendingum samtals um 630 milljónir pólskra slota, sem eru um 26 milljarðar miðað við núverandi gengi. Lánið verður greitt hingað í þremur hlutum í tengslum við framgang efnahagsáætlunar IMF.

Lánin fara öðru fremur í að styðja við gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Hann er nú um 2,5 milljarðar evra. Það samsvarar vöruinnflutningi í rúmt ár miðað við síðustu 12 mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.