Hagnaður ársins hjá Lánasjóði sveitarfélaga nam 983 milljónum króna árið 2016 samanborið við 1.046 milljón króna hagnað árið 2015.

Afkoma ársins fyrir óreglulega liði nam 713 milljónum króna samanborið við við 818 milljónir króna árið 2015. „Á árinu 2016 voru tekjufærðar 270 milljónir vegna greiðslu krafna úr þrotabúum fallinna fjármálastofnanna, Glitni Holdco og SPRON. Árið 2015 var tekjufærsla að fjárhæð 227 milljónir vegna dóma í gengislánamálum,“ segir í tilkynningu sjóðsins til Kauphallarinnar.

Heildareignir sjóðsins í lok árs voru 78.024 milljónir króna á móti 77.111 milljón króna í árslok 2015. Heildarútlán sjóðsins námu 71.175 milljón króna í lok árs samanborið við 71.575 milljón króna í árslok 2015.

Eigið fé sjóðsins nam 17.172 milljónum króna á móti 16.712 milljónum króna í árslok 2015 og hefur hækkað um 2,8% á árinu.

„Lánasjóðurinn mun starfa í meginatriðum svipað og undanfarin ár þar sem unnið hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum. Væntingar stjórnenda standa til að afkoma af hefðbundinni starfsemi verði í samræmi við það sem verið hefur undanfarin ár,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni.