Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir landbúnaðinn nær engu máli hvað umsókn að Evrópusambandinu varðar. Rétt væri að klára aðildarviðræður við sambandið. Þetta kom fram í Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun.

„Landbúnaður er, eftir því hvernig það er reiknað, hálft til eitt prósent af landsframleiðslu og skiptir í raun ekki máli. Hlutdeild landbúnaðar í landsframleiðslu hefur minnkað og mun minnka. Staðan hjá sauðfjárbændum er þannig að 97% af tekjum koma úr beingreiðslum. Þetta getur varla talist atvinnuvegur. 47% af tekjum kúabænda eru á sama veg, beingreiðslur," sagði Vilhjálmur Bjarnason á Bylgjunni.

Gætu varla haft það verra

Vilhjálmur bætir því við að með núverandi landbúnaðarkerfi hafi tekist að skapa láglaunastétt sem séu bændurnir sjálfir. „Bændastéttin er láglaunastétt og gæti ekki haft það ver innan ESB en utan," segir hann. Íslenskur landbúnaður sé sérstakt vandamál í sjálfu sér sem ekkert hafi verið gert í á seinustu árum.