Þrátt fyrir stuttan líftíma hefur nýja Landeyjahöfnin verið nær stöðugt tilefni frétta frá því hún var opnuð 20. júlí. Sandburður í höfnina hefur verið mun meiri en flestir reiknuðu með og það hefur þráfaldlega hamlað siglingum Herjólfs í höfnina. Ofan á þetta bætist verulegur dráttur á komu dýpkunarskips sem átti að hefja þar störf í byrjun janúar. Hefur það valdið miklum pirringi meðal Vestmannaeyinga.

Alþingismaðurinn Róbert Marshall kallaði m.a. eftir því í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að pólitíkusar tækju ráðin af Siglingastofnun til að komu hlutunum í verk. Siglingastofnun greindi frá því á vefsíðu sinni á Þorláksmessu að Landeyjahöfn hafi verið opin síðastliðinn mánuð og dýpi hafi verið nægjanlegt og sandburður lítill. Sagði á vefsíðunni að sandflutningurinn núna væri aðeins 1/8 af því sem hann var í haust og það væri mjög jákvætt.

Þrátt fyrir það hamlaði öflug lægð með mikilli ölduhæð úr suðri og suðaustri siglingum Herjólfs um jólin. Þá var einnig greint frá því að sandrif væri farið að myndast við hafnarmynnið. Sagði Siglingastofnun að afleiðingar lægðarinnar yrðu líklega þær að grynnka muni í hafnamynni Landeyjahafnar og hún lokist þar með.

„Alls væri óvíst hvenær náist að dýpka nægjanlega fyrir Herjólf." Nú er allt útlit fyrir að dýpkun hefjist ekki í höfninni fyrr en í fyrsta lagi eftir miðjan janúar. Ástæðan er ekki vont veður heldur tafir á að Scandia, dýpkunarskip Íslenska Gámafélagsins, mæti á svæðið. Dýpkunarskipið Scandia átti að hefja vinnu við dýpkun í Landeyjahöfn í byrjun janúar en Íslenska Gámafélagið fékk verkefnið í kjölfar útboðs. Skipið átti að fara í skoðun hjá Siglingastofnun í Danmörku þann 15. desember sl. en vegna tafa á viðgerð þurfti að seinka skoðun og fékk skipið ekki úthlutað nýrri skoðun fyrr en 10. janúar nk. Því er ljóst að skipið hefur ekki dýpkun fyrr en um seinnipartinn í janúar.

Scandia er 500 m3 dýpkunarskip sem er bæði með fram- og afturrör og er talið henta ágætlega til dýpkunar í Landeyjahöfn. Unnið hefur verið að því sl. mánuð að auka afkastagetu þess enn frekar með ísetningu öldujafnara sem gerir skipið hæfara til að vinna við dýpkun í mikilli ölduhæð. Hvort þessu skipi auðnist að tryggja siglingar Herjólfs í Landeyjahöfn í vetur getur reynslan skorið úr um. Ljóst virðist þó að náttúruöflin verða ekki stöðvuð svo glatt og að sandur muni halda áfram að berast að hafnarmynninu hvað sem öllum dælingum líður.