Samningur hefur verið undirritaður milli Landic Ísland og Miðbæjarhótela/Centerhotels um leigu á rúmlega 3000 fermetrum í Aðalstræti 6 og 8 í Reykjavík. Um er að ræða hluta jarðhæðar, og aðra, þriðju og fjórðu hæð. Stefnt er að því að Hótel Plaza muni opna á milli núverandi hótels í Aðalstræti 4 yfir í húsnæðið í Aðalstræti 6 og 8, segir í fréttatilkynningu.

Með stækkuninni mun herbergjum fjölga í Hótel Plaza um sjötíu og fimm og verða samtals 180 gistiherbergi í hjarta miðborgarinnar. Stefnt er að opnun nýja rýmisins á vormánuðum á næsta ári.

Kristófer Oliversson framkvæmdastjóri Miðbæjarhótela segir í tilkynningunni: “Þessi stækkun er góð viðbót við þau hótel sem við rekum nú í miðborginni, en auk Plaza rekum við Hótel Skjaldbreið, Klöpp, Þingholt og Arnarhvol, sem opnaði nýlega í gamla Fiskifélagshúsinu við Ingólfsstræti 1. Haustið er betur bókað hjá okkur en á sama tíma í fyrra og á góðum dögum munum við þá geta hýst yfir 800 gesti. Þetta er líklega skjótvirkasta leiðin til að skila gjaldeyristekjum inn í landið.”

Þegar er búið að leigja 7. hæð í Aðalstræti 6 undir skrifstofur Alþingis og viðræður eru í gangi um leigu á húsnæði fyrir veitingastað á hluta jarðhæðarinnar. Til skoðunar er að leigja jarðhæðina í Aðalstræti 8 undir veitingarekstur, verslun eða aðra þjónustu. Efsta hæðin í Aðalstræti 6 (Gamla Morgunblaðshúsinu) hefur enn ekki verið leigð.