Síðastliðið ár unnu stjórnendur móðurfélagsins Landic Property hf., í samvinnu við kröfuhafa, að því að verja íslenska starfssemi félagsins og losa um erlendar eignir og veðskuldir en í því ferli hefur meðal annars verið gengið frá sölu á eignasöfnum félagins í Danmörku og Finnlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem einnig kemur fram að rekstur íslenska fasteignasafnsins sé nú tryggður og standi traustum fótum.

Þá kemur fram að þar sem félagið komi til með að starfa eingöngu á innlendum markaði hafi verið ákveðið að taka upp íslenskt nafn. Frá og með deginum í dag starfar Landic Property Ísland því undir nafninu Reitir fasteignafélag.

Fram kemur að Reitir verða sjálfstætt félag í meirihlutaeigu íslenskra banka. Stjórnendur Landic Property hf. sömdu við NBI (Landsbankann), Arion Banka (áður Nýja Kaupþing), Íslandsbanka, Glitni, Haf Funding og Byr um fjárhagslega endurskipulagningu íslenska fasteignafélagsins og dótturfélaga. Samningarnir tryggja áframhaldandi rekstargrundvöll innlends fasteignasafns í sjálfstæðu félagi - Reitir.

„Fasteignafélagið Reitir býr að vönduðu eignasafni og sterkum hópi viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni en fasteignasafnið samanstendur af 130 fasteignum, yfir 400 þúsund fermetrum, einkum verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík.

Reitir eru stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði fasteignareksturs, en meðal eigna félagsins eru Kringlan og Hilton Reykjavík Nordica, Kauphallarhúsið, Holtagarðar og margar af „perlum íslenskrar byggingarsögu sem staðsettar eru í miðbænum,“ eins og það er orðað í tilkynningu.

Meðal leigutaka okkar eru Reykjavíkurborg, Hagar, Fasteignir Ríkisins, Landsbankinn, Íslandsbanki, Icelandair hotels, Actavis og NTC. Eignir félagsins eru yfir 90 milljarða króna virði.

Að lokum má taka fram að í Viðskiptablaðinu í dag má finna ítarlegt viðtal við Viðar Þorkelsson, forstjóra Reita.