Mikil óvissa er um fjárhagsleg áhrif Landmælingafrumvarpsins svokallaða á ríkissjóð. Frumvarpið heimilar Landmælingum að gera, viðhalda og miðla stafrænum kortaupplýsingum gjaldfrjálst til almennings í meiri upplausn en hingað til hefur verið miðað við. Í umsögn fjármálaráðuneytis segir að margir óvissuþættir séu uppi í tengslum við frumvarpið, sem geti haft neikvæð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð, einkum til langs tíma.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafnar þessu hins vegar í svari við skriflegri fyrirspurn Viðskiptablaðsins. „Ef frumvarpið verður að lögum þá verður ekki um aukinn kostnað að ræða fyrir ríkissjóð.“

Segir Landmælingar framlengja eigið líf

Karl Arnar Arnarson, forstjóri Loftmynda ehf., segist undrandi á því að ekki hafi verið ráðist í óháða greiningu á því hvort þörf væri á frumvarpinu og efast einnig stórlega um að hægt sé að fullyrða að það muni engin neikvæð áhrif hafa á ríkissjóð. Karl hefur gagnrýnt frumvarpið harðlega undanfarnar vikur.

Hann segir óheppilegt að Landmælingar hafi haft mjög nána aðkomu að því að semja frumvarpið, en það var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samráði við stofnunina. „Það er verið að blása lífi í opinbera stofnun sem er að stóru leyti orðin óþörf í dag. Í stað þess að horfast í augu við þann raunveruleika bregðast menn svona við, að fara bara að auka starfsemina. Það er stofnunin sjálf sem ákveður þetta að hún þurfi að fara að gera þetta án þess að það sé gerð nein óháð úttekt á því hvort það sé þörf á þessu,“ segir Karl.

Gunnar H. Kristinsson, forstöðumaður mælinga- og landupplýsinga hjá Landmælingum, segir gagnrýni sem þessa ekki réttmæta. „Við teljum okkur vera mjög heil í því að við erum að horfa á hagsmuni samfélagsins í heild,“ segir hann. Sambærilegt fyrirkomulag tíðkist víða erlendis, til að mynda í Bretlandi. „Við erum að elta aðrar þjóðir, en ekki að finna neitt upp,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .