Landsbanki Íslands ætlar að hefja netbankaviðskipti í Bretlandi, segir í frétt breska blaðsins The Guardian.

Landsbankinn, sem hefur lýst yfir áhuga á að auka innlánastarfsemi í Bretlandi, á breska bankann Heritable Bank og verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood. Nýleg kaup Landsbankans á fjármálafyrirtæki í Guernsey eru liður bankans í að auka innlánastarfsemina.

Íslensku bankarnir voru gagnrýndir harkalega fyrr á þessu ári af erlendum greiningaraðilum fyrir að vera of háðir erlendum skuldabréfamörkuðum og hefur fjármögnunarkostnaður bankanna hækkað verulega síðan.

Bankarnir hafa lokið endurfjármögnun fyrir næsta ár, en sérfræðingar benda á að kjörin hafi verið óhagstæð og ekki endurspeglað styrk þeirra.