Landsbankinn hefur ákveðið að feta í fótspor Arion banka og bjóða upp á óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma með breytilegum vöxtum til þriggja eða fimm ára í senn. Ennfremur hefur bankinn lækkað vexti á verðtryggðum fasteignalánum úr 4,3% í 3,9% á ári. Þá býður Landsbankinn upp á nýja tegund innlánsreikninga, Fastvaxtareikninga, sem er með allt að 5,2% föstum óverðtryggðum vöxtum út binditímann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Þar segir að lánin marki þáttaskil á íslenskum lánamarkaði og jafnframt að með þessum nýjungum vilji bankinn tryggja að viðskiptavinurinn hafi alltaf kost á því að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggra lána.