Í ljósi tilmæla Fjármálaeftirlitsins (FME) hefur stjórn Landsvaka hf. nú tekið ákvörðun um það að öllum peningamarkaðssjóðum í rekstri félagsins verði slitið.

Útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf Landsbankans verður þó aðeins 68,8%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en föstudaginn 17. október síðastliðinn beindi FME þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að unnið yrði að slitum á öllum peningamarkaðssjóðum og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis yrði gætt.

Í tilkynningunni kemur fram að þeir peningamarkaðssjóðir sem seldir hafa verið af Landsbanka Íslands hf. voru reknir af dótturfélagi bankans, Landsvaka hf. sem er sjálfstætt rekstrarfélag verðbréfasjóða undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Eins og fyrr segir liggur nú fyrir að útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf Landsbankans ISK sé 68,8 %, þ.e. þess sjóðs sem er í íslenskum krónum og er stærsti sjóðurinn.

Þá kemur fram að greiðslur munu berast sjóðfélögum á morgun inn á innlánsreikninga í viðkomandi gjaldmiðli. Greiðslur vegna Peningabréfa ISK verða greiddar inn á hávaxta innlánsreikning í Landsbankanum þar sem innstæður eru að fullu tryggðar.

Útgreiðsluhlutföll fyrir Peningabréf Landsbankans eru sem hér segir:

  • Peningabréf Landsbankans ISK:   68,8%
  • Peningabréf Landsbankans EUR: 67,6%
  • Peningabréf Landsbankans USD: 60,0%
  • Peningabréf Landsbankans GBP:  74,1%
  • Peningabréf Landsbankans DKK:  70,1%

Neyðarlögin breyttu breytt rekstrarumhverfi sjóðanna

Í tilkynningu Landsbankans kemur fram að í framhaldi af setningu neyðarlaganna sem sett voru á Alþingi þann sjötta þessa mánaðar vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, hefur verið lokað fyrir innlausnir allra peningamarkaðssjóða síðan 6. október.

Þá kemur fram að þeir atburðir hafi breytt rekstrar- og fjárfestingarumhverfi peningamarkaðssjóða verulega. Landsbankinn segir að með lagasetningunni var forgangsröð krafna á banka breytt, þannig að innlán voru sett framar skuldabréfum á sömu fyrirtæki;

„Umrót eins og það sem nú hefur orðið þýðir verulegt verðfall skuldabréfa innlendra banka. Það sama á við um skuldabréf fleiri útgefenda á markaði,“ segir í tilkynningu Landsbankans og því er bætt við að skuldabréf í fjármálafyrirtækjum hafi áður verið talin öruggur fjárfestingarkostur „enda báru þau traustar einkunnir alþjóðlegra lánshæfismatsfyrirtækja er sögðu til um áreiðanleika þeirra,“ eins og það er orðað.