Landsbankinn hagnaðist um 7,7 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2012. Til samanburðar nam hagnaður fyrsta ársfjórðungs síðasta árs 12,7 milljörðum króna. Bankinn segir að minni hagnaður skýrist einna helst af lægri tekjum af hluta- og skuldabréfum og því að skattar séu nú mun hærri en þeir hafa áður verið. Skattgreiðslur bankans námu 2,2 milljörðum króna á tímabilinu.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 22,1% en var 20,4% á sama tíma á síðasta ári. Eiginfjárhlutfallið er því vel umfram 16% lágmark Fjármálaeftirlitsins. Arðsemi eigin fjár var 15,2% og eigið fé bankans tæpir 208 milljarðar króna.

Í tilkynningu frá Landsbankanum er haft eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að þó rekstur Landsbankans sé traustur einkenni ládeyða nú efnahagslífið. Það setji bankastarfsemi skorður.

„Óvissa í stórum og mikilvægum málaflokkum einkennir ástandið á Íslandi og veldur því að fjárfesting er með minnsta móti og lítil eftirspurn eftir lánsfé. Þetta finnum við glöggt í Landsbankanum og ekki bætir úr skák að enn og aftur er risin óvissa um endurútreikning ólögmætra lána, sem tefur endurskipulagningu skulda bæði heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að sem fyrst verði hægt að greiða úr ágreiningsefnum vegna dóms Hæstaréttar í febrúar en vonir standa til að hægt verði að hraða fordæmisgefandi málum í gegnum dómskerfið,“ segir Steinþór.