Hagnaður hluthafa Landsbankans [ LAIS ] nam 8,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, sem er nokkru yfir meðalspá greiningardeilda hinna íslensku bankannna um 8,0 milljarða króna hagnað. Hagnaður jókst umtalsvert frá sama fjórðungi í fyrra og hagnaður á hlut fór úr 0,49 krónum á þriðja fjórðungi í fyrra í 1,14 krónur í ár.

Hreinar vaxtatekjur voru í samræmi við spár, 14,4 milljarðar króna, en hreinar rekstrartekjur voru 26,6 milljarðar króna, sem er heldur hærra en spáð hafði verið. Þóknanatekjur námu 10,2 milljörðum króna og hafa aldrei verið hærri.

Hagnaður stóru bankanna 31 milljarður króna

Samanlagður hagnaður hluthafa stóru bankanna fjögurra, Kaupþings [ KAUP ] , Landsbankans [ LAIS ] , Glitnis [ GLB ]  og Straums [ STRB ], nam 31 milljarði króna á þriðja fjórðungi ársins. Hagnaður Kaupþings var mestur og nam 14,4 milljörðum króna, þá kom Landsbankinn með 8,5 milljarða, Glitnir með 7,9 milljarða og loks Straumur með jafnvirði um 0,2 milljarða króna, en hann gerir upp í evrum.

Afkoman mjög góð að sögn bankastjóranna

Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri segir að ,,afkoma og arðsemi Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2007 er mjög góð. Hagnaður eftir skatta nemur 35 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár 33%.  Um helmingur tekna bankans kemur nú erlendis frá auk þess sem stór hluti af tekjum innlendrar starfsemi er tengdur erlendum myntum.  Er hlutfall erlendra mynta í heildartekjum nú um það bil tveir þriðju. Í ljósi þessa hefur bankinn byggt upp um 70 milljarða gjaldeyrisstöðu til þess að verja eigið fé bankans fyrir gengissveiflum. Þóknunartekjur bankans héldu áfram að vaxa á þriðja ársfjórðungi 2007 og er hann sá besti frá upphafi hvað þær varðar. Grunnafkoma bankans á fyrstu níu mánuðunum ársins 2007 er mjög góð og var arðsemi eiginfjár fyrir skatta af grunnstarfsemi 26%.  Afkomuhorfur fyrir árið 2007 hjá Landsbankanum eru í heild sinni góðar”.

Halldór J. Kristjánsson bankastjóri segir að  ,,árangur af margháttuðum aðgerðum sem bankinn greip til á fyrri hluta ársins 2006 til að lækka markaðsáhættu, styrkja áhættustýringu, lengja afborgunarferli lántöku bankans og sérstaklega með fjölþættri alþjóðlegri innlánastarfsemi  er að koma fram með skýrum hætti nú á þriðja ársfjórðungi. Þau skref sem Landsbankinn hefur stigið, sérstaklega varðandi fjármögnun bankans   hafa komið sér mjög vel í þeim óróa sem gætt hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Innlán viðskiptavina nema nú um helmingi af heildarfjármögnun samstæðunnar og munar þar mestu um innlán frá 110 þúsund viðskiptavinum sem valið hafa IceSave innlánsform okkar í Bretlandi. Lausafjárstaða bankans var því afar sterk nú í haust þegar erfiðleikar byrjuðu á alþjóðlegum lausafjármörkuðum.  Eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er með því sem best gerist á evrópskum bankamarkaði og  sú staða  felur í sér tækifæri við núverandi aðstæður  á alþjóðlegum mörkuðum ”.