Landsbankinn hefur gengið í samtökin Nordic Financial CERT sem eru samtök norænna fjármálafyrirtækja sem er ætlað að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu.

Þrír norrænir bankar stofnuðu Nordic Financial CERT í apríl 2017; Nordea í Svíþjóð, DnB í Noregi og Danske Bank í Danmörku. Síðan þá hefur fjöldi banka og tryggingafélaga bæst í hópinn, þar á meðal frá Finnlandi og í nóvember gekk Landsbankinn í samtökin, fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja. Fyrirtæki sem eru aðilar að samtökunum skiptast á viðeigandi upplýsingum um hvers kyns tilraunir til fjársvika á netinu og varnir gegn þeim.

Í tilkynningunni segir að samstarfið styrki bankann í baráttu gegn netvsikum. „Með samstarfi við önnur fjármálafyrirtæki á Norðurlöndunum í gegnum Nordic Financial CERT fáum við aðgang að verðmætri þekkingu og reynslu af baráttu gegn netsvikum og miðlum um leið af okkar eigin reynslu og þekkingu. Netglæpir verða sífellt þróaðri og því er brýn þörf á að fjármálafyrirtæki leggi saman krafta sína til að berjast gegn þeim. Okkar von er að samstarfið muni stuðla að auknu öryggi í bankaviðskiptum,“ er haft eftir Arinbirni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Upplýsingatækni Landsbankans.