Landsbankinn hefur ákveðið að bjóða nú upp á óverðtryggð íbúðalán með breytilegum vöxtum sem taka mið af stýrivöxtum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans kynnti lánin á blaðamannafundi fyrir skömmu.

„Óverðtryggð íbúðalán henta þeim viðskiptavinum sem vilja greiða lán sín hraðar niður og forðast uppsöfnun verðbóta á höfuðstól,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

„Eins henta lánin þeim sem vilja skilmálabreyta íbúðalánum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur og telja að óverðtryggðir vextir muni lækka í framtíðinni og krónan veikjast.“

Þá kemur fram að þar sem vextir eru mjög háir í dag býður Landsbankinn upp á greiðsluaðlögun fram í maí 2011. Á aðlögunartímanum greiðir viðskiptavinur ekki afborganir af höfuðstól og ekki hærri vexti en 7% á ársgrundvelli. Mismunurinn á óverðtryggðum íbúðalánavöxtum Landsbankans og greiddum vöxtum kemur til hækkunar á höfuðstól lánsins og greiðist niður á afborgunartímabilinu. Að loknu aðlögunartímabili hefst afborgunartímabil.