Landsbankinn er talinn hafa haft samband við forsvarsmenn Irish Nationwide Building Society (INBS) með það að augnamiði að bjóða í írska bankann, að því er kemur fram í dagblaðinu Irish Independent. Landsbankinn, sem keypti írska verðbréfafyrirtækið Merrion Capital árið 2005, hefur fengið breska bankarisann HSBC til ráðgjafar við hugsanleg kaup.

INBS var breytt í banka fyrir fimm árum, en bíða þurfti í ákveðinn tíma frá umbreytingunni þar til hægt væri að kaupa félagið. Talið er að kaupverð muni nema liðlega 1,5 milljarði evra. Hagnaður INBS nam um 237 milljónum evra á síðasta ári. Haft hefur verið á orði innan bankageirans að áhugi fjárfesta og banka fyrir kaupum á INBS sé ekki sá sem vænta hefði mátt á írsku fjármálafyrirtæki fyrir fáum misserum. Fjármálasérfræðingar hafa nefnt að INBS hafi hreinlega misst af lestinni sem hefur verið á svo mikilli fleygiferð á síðustu árum. Hækkandi vextir um heim allan hafi fælandi áhrif á fjárfesta og hraðvaxandi hagkerfi eins og hið írska eru sérlega viðkvæm fyrir slíku.

Frá þessu var greint í Viðskiptablaðinu í dag.