Stjórnendur Landsbankans fullyrða að salan á Landsbanki Securities í Bretlandi, Landsbanki Kepler og 84% hlut bankans í Merrion Landsbanki á Írlandi til Straums-Burðaráss, tengist ekki miklum atburðum í bankaheiminum um liðna helgi.

Það kann vafalaust að vera rétt en hins vegar er ljóst að Landsbankamenn hafa alls ekki viljað bíða með það að styrkja eiginfjárstöðuna og því er vart hægt að líta svo á að dagsetning viðskiptanna sé einskær tilviljun.

Að vísu var tilkynnt um þau í gær en þau voru hins vegar gerð á þriðjudaginn, eða 30. september, og umrædd styrking á eiginfjárstöðunni kemur því fram strax í næsta fjórðungsuppgjöri Landsbankans en ekki í árslok, sem hefði verið niðurstaðan ef skrifað hefði verið undir í gær. Það bendir til þess að mönnum hafi þótt liggja á að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans.

Þar sem íslensku bankarnir, þar með talinn Landsbankinn, hafa fram til þessa státað af sterkri eiginfjárstöðu hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna menn telja nauðsynlegt að styrkja hana – fyrst hún var svo sterk fyrir.

Þar kemur auðvitað bara tvennt til greina; að menn vilja geta teflt fram enn hærra hlutfalli eða þá hitt að menn reikna með að það myndi lækka að óbreyttu.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .