Landsbankinn mun sameina tvö útibú sín á höfuðborgarsvæðinu þann 18. júlí næstkomandi en þá verður útibúi bankans við Háaleitisbraut lokað og sameinað útibúi bankans í Hamraborg í Kópavogi.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru engar uppsagnir fyrirhugaðar á starfsfólki. Meginþorri starfsmanna Háaleitisútibús mun flytjast í Hamraborgina. Aðrir starfsmenn munu flytjast til í önnur störf innan Landsbankans.

Þá munu tveir útibússtjórar stýra útibúi bankans í Hamraborg. Margrét Gísladóttir, núverandi útibússtjóri við Háaleitisbraut, mun hafa yfirumsjón með einstaklingsviðskiptum en Yngvi Óðinn Guðmundsson, núverandi útibússtjóri við Hamraborg, mun hafa yfirumsjón með viðskiptum við fyrirtæki.

Sameinað útibú í Hamraborg verður fjórða stærsta útibú bankans en Landsbankinn rekur nú 40 útibú á höfuðborgarsvæðinu.