Landsbankinn hefur samþykkt að fresta greiðslum Reykjaneshafnar fram til 1. maí 2011, en bankinn var eini kröfuhafi hafnarinnar sem hafði hafnað tillögu um slíka frestun sem lögð var fram í nóvember. Nýr fundur var haldinn 10. desember og nú hefur Landsbankinn samþykkt að verða við beiðni hafnarinnar.

Allir voru búnir að samþykkja nema Landsbankinn

Samkvæmt tillögunni munu gjaldfallnar greiðslur og dráttavextir bætast við höfuðstól útistandandi skulda Reykjaneshafnar ásamt því sem ýmsar kvaðir eru settar á höfnina.Reykjaneshöfn skuldar kröfuhöfum sínum um fimm milljarða króna. Reykjanesbær er í ábyrgð fyrir þeim lántökum sem teknar voru vegna uppbyggingar á stórskipahöfn í Helguvík.

Alls eru kröfuhafar Reykjaneshafnar 20 talsins.  Lánasjóður sveitarfélaga, einn kröfuhafanna, hafði lýst því yfir að honum sé óheimilt samkvæmt lögum að samþykkja umbeðna frestun en 18 af hinum 19 kröfuhöfunum voru búnir að samþykkja hana. Landsbankinn, sem á 20 milljón króna kröfu, var sá eini sem hafði ekki gert það.

Þéna einungis 19 milljónir vegna reglulegrar starfsemi

Þegar eru gjaldfallnar afborganir vegna skuldbindinga Reykjaneshafnar eru um 364 milljónir króna. Samkvæmt tillögunni lofar Reykjaneshöfun að stofna ekki til nýrrar lántöku né veita veð í neinum eignum sínum gegn því að fá frestun á þessum greiðslum.

Vaxtaberandi skuldir Reykjaneshafnar nema 4.928 milljónum króna. Áætlaður hagnaður hafnarinnar fyrir fjármagnskostnað er talin verða 65 milljónir króna. Þar af eru 19 milljónir vegna reglulegrar starfsemi en afgangurinn er í formi endurgreiddra fasteignaskatta.