Landsbanki Íslands hefur verið að skoða möguleika á því að kaupa bresku verslunarkeðjuna Blacks Leisure fyrir ónafngreindan viðskiptavin, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en breski auðkýfingurinn og eigandi Sports World-verslunarkeðjunannar, Mike Ashley, er einnig talinn hafa áhuga á að kaupa Blacks.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Landsbankinn sé ekki að vinna fyrir Baug, sem hefur fjárfest kröftuglega í breskum smásölufyrirtækjum síðustu ár, né FL Group, sem hefur gefið til kynna aukinn áhuga á að fjárfesta í smásölufyrirtækjum og fyrirtækjum á afþreyingarmarkaði. Saman tóku Baugur og FL Group þátt í að kaupa bresku stórverslunarkeðjuna House of Fraser fyrir um 453 milljónir punda, sem samsvarar um 58 milljörðum króna, ásamt skuldum.

Fjárfestingasjóðirnir Advent og Bridgepoint hafa einnig verið orðaðir við Blacks, en afkoma félagsins hefur verið undir væntingum og nam hagnaður félagins 21,4 milljónum punda á síðasta ári og voru tekjur á sama tíma 297 milljónir punda.

Ashley er talinn hafa áhuga á að sameina Blacks og Sports World-keðjuna, sem hefur skilað mun betri afkomu. Tekjur Sports World jukust um 45% á síðasta ári í 905 milljónir punda og verðmæti félagsins er talið vera um einn milljarður punda.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Landsbankinn hafi átt fundi með stjórnendum Blacks, fyrir hönd viðskiptavinar síns, en taka fram að viðræðurnar séu á algjöru byrjunarstigi. Málið hefur ekki farið fyrir lánanefnd og bent er á að stjórnendur Blacks hafi lekið upplýsingunum um fundina til þess að ýta upp gengi hlutabréfa Blacks, sem hefur verið að lækka jafnt og þétt í kjölfar afkomuviðvarana.