Landsbankinn fékk í gær staðfesta grunnlýsingu vegna útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt í kauphöllinni í Dublin á Írlandi. Um er að ræða EMTN skuldabréfaramma (Euro Medium Term Note Programme) sem gefur Landsbankanum færi á að gefa út skuldabréf að jafnvirði allt að einum milljarði evra í ýmsum gjaldmiðlum og á föstum eða fljótandi vöxtum.

„Aðgangur að traustri erlendri lánsfjármögnun er og hefur verið eitt af meginmarkmiðum Landsbankans,“ er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, í fréttatilkynningu sem bankinn birti í gær. „Með skráningu EMTN skuldabréfaramma í erlendri kauphöll stígur Landsbankinn enn eitt skref á þeirri leið að tryggja sér aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum og er nú reiðubúinn til skuldabréfaútgáfu í erlendri mynt, þegar hagstæð kjör bjóðast,“ sagði Steinþór.